Skákborgin

REYKJAVÍK 1972. Ferðamenn flykkjast til landsins. Eftirvænting og bros er í hverju andliti. Hvað er að gerast? Jú - HM-einvígið í skák er að hefjast.

Skáklíf á Íslandi er merkileg saga. Hvernig gat lítil 200.000 manna þjóð árið 1972 fengið frægasta HM-einvígi sögunnar? Helgi Ólafsson segir eftir BBC að HM-einvígið ´72 hafi verið einn stærsti viðburður á sviði menningar og íþrótta á 20. öld. Freysteinn Þorbergsson lagði stóran hluta ævistarfs síns í að koma einvíginu hingað til lands. Ef til vill fer það að renna upp fyrir Íslendingum að hér var ekki bara einhver fundur sem er gleymdur daginn eftir, heldur heimsviðburður sem hvorki mölur né ryð fá grandað og mun lifa með þjóðinni og allri heimsbyggðinni.

Ég hef lengi furðað mig á því hversvegna ekki er búið að koma upp myndarlegu skákminjasafni hér á landi því ekki geta margar þjóðir státað af slíkri sögu .

Freysteinn hafði mikinn áhuga á að slíku safni yrði komið upp hér á landi. Við ræddum um það á sínum tíma. Safnið yrði að vera miðsvæðis í borginni. Það yrði lifandi safn. Þegar komið væri inn í húsið þyrfti að vera salur með glervegg þar sem sæjust lifandi menn að tafli. Nokkrir salir þyrftu að vera til að halda minni og stærri skákmót en á milli gætu þeir verið til annarra nota. Fengnir yrðu heimsþekktir skákmeistarar til að flytja fyrirlestra og halda námskeið ekki bara um skák heldur í ýmsum greinum menningar og lista. Skákmenn eru ekki bara skákmenn, þeir koma frá ólíkum menningarheimum og hafa margir sérhæft sig í ýmsum greinum

Safnið þyrfti ekki endilega að vera stærsti hluti hússins en yrði sá frægasti. Hver skákmeistari sem fengi þann heiður að vera í safninu hefði sér glerhýsi fyrir sig. Þar yrðu persónulegir munir úr skáksögu hans og eftirlíking af viðkomandi skákmanni í líkamsstærð. Þegar settar yrðu upp sýningar af skákmótum sem viðkomandi tók þátt í þá yrði sett stór mynd í glerhýsið í staðinn og spjald um að viðkomandi skákmeistari væri að tefla í sal 4.

Þarna yrði hægt að sýna ferðamönnum Fischer og Spasský við taflborðið eins og þeir litu útþegar einvígið fór fram. Einnig ýmsa frumkvöðla á sviði skáklistarinnar og stórmeistara okkar. Sagan eins og hún gerðist yrði sögð fram á okkar daga með nýjustu tækni sem til væri.

Freysteinn hugsaði sér að í húsinu yrðu leigðar út listamannastofur, þar sem fólk gæti unnið, sýnt verk sín og selt og t.d. rithöfundar lesið upp úr verkum sínum bæði innlendir og erlendir. Þarna yrði kaffihús og matsalur sem byði m.a. upp á íslenska rétti og þar gætu hinir fjölbreytilegustu hópar hist og rætt málin. Í slíku umhverfi mundu gerjast margskonar hugmyndir. Þarna kæmu stjórnmálamenn innlendir sem erlendir og upplýstu fólk um heimsmálin og svöruðu spurningum. Þannig yrðu stjórnmálamenn okkar betur upplýstir og því betur í stakk búnir til að taka veigamiklar ákvarðanir.

Sumir skákmenn eru líka tónlistarmenn og mundu þeir eins og aðrir tónlistarmenn einnig eiga þarna heima með alls kyns uppákomur og skemmtanir. Slíkt safn, ef vel er að verki staðið, gæti dregið að sér listafólk og annað frægt fólk erlendis frá. Þannig mundi skákin styrkja aðrar listgreinar og þær styrkja skákina.

Það eru 35 ár síðan við Freysteinn ræddum um þetta. Víst er að eitthvað er gleymt. Mér finnst þó að nú þegar Reykjavíkurborg vill styðja skákina að þessi hugmynd þurfi að koma inn í umræðuna um "skákborgina Reykjavík".

Höfundur er húsmóðir.


Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband